Íslenska

Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis

Öndvegisstyrkur frá Rannsóknasjóði 2016-2019, 117,5 m.kr.

Verkefnisstjórar: Sigríður Sigurjónsdóttir og Eiríkur Rögnvaldsson.

Aðrir þátttakendur: Anton Karl Ingason (Málvísindastofnun), Ari Páll Kristinsson (Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum), Ásgrímur Angantýsson (Málvísindastofnun), Birna Arnbjörnsdóttir (Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum), Einar Freyr Sigurðsson (Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum), Elín Þöll Þórðardóttir (McGill University), Guðbjörg Andrea Jónsdóttir (Félagsvísindastofnun), Laurel McKenzie (New York University), Noel P. Ó Murchadha (Trinity College Dublin), Joel Wallenberg (Newcastle University) og Charles Yang (University of Pennsylvania).

Doktorsnemar: Ásrún Jóhannsdóttir (2016-2018), Iris Edda Nowenstein (2017-2019), Þorbjörg Þorvaldsdóttir (2018-2019).

Meistaranemar: Berglind Hrönn Einarsdóttir (2019), Dagbjört Guðmundsdóttir (2017-2019), Elín Þórsdóttir (2017-2018), Hildur Hafsteinsdóttir (2018-2019), Lilja Björk Stefánsdóttir (2017-2018), Max Naylor (2017), Steinunn Valbjörnsdóttir (2018), Tinna Frímann Jökulsdóttir (2018).

Aðstoðarfólk: Bolli Magnússon (2018-2019), Bryndís Bergþórsdóttir (2018), Hinrik Hafsteinsson (2018-2019), Oddur Snorrason (2018-2019), Ólöf Björk Sigurðardóttir (2018), Salome Lilja Sigurðardóttir (2018-2019), Sigríður Mjöll Björnsdóttir (2016-2017), Sólrún Hedda Benedikz (2018-2019), Þórunn Arnardóttir (2018-2019).

Tölfræðileg úrvinnsla: Helgi Guðmundsson (Félagsvísindastofnun), Margrét Valdimarsdóttir (Félagsvísindastofnun).

Um verkefnið

Verkefnið felst í því að rannsaka áhrif eins tungumáls á annað í gegnum stafræna miðla og í prófunarskyni er sjónum beint að notkun ensku í íslensku málsamfélagi. Lýsandi markmið rannsóknarinnar er að kortleggja dreifingu og eðli ensks og íslensks ílags í íslensku málsamfélagi og fá yfirlit yfir máltilbrigði sem kunna að tengjast nánu sambýli íslensku og ensku. Fræðilega markmiðið er að tengja félagslega þætti og tvítyngi við nýlegar hugmyndir og líkön fræðimanna sem gera ráð fyrir að innri málkunnátta málnotenda sé leidd af magni og dreifingu ílags á máltökuskeiði og takmarkist af tilteknum hömlum sem gilda um það hvernig tungumál geta verið. Í því sambandi verður einkum byggt á breytileikalíkani Yangs um máltöku og þær hugmyndir þróaðar áfram.

Viðamikil netkönnun sem ætlað er að veita megindlegt yfirlit um notkun íslensku og ensku í íslensku málsamfélagi verður lögð fyrir 5000 þátttakendur sem valdir verða með lagskiptu handahófsúrtaki. Ítarlegum málgögnum verður safnað frá 400 málhöfum sem verða sérstaklega valdir úr stærri hópnum. Ílag hvers málhafa verður greint og metið og tilteknir þættir málkunnáttunnar kannaðir með viðtölum og prófum. Auk þess verður netkönnun sem öllum gefst kostur á að taka þátt í dreift með hjálp samfélagsmiðla. Rannsóknin er mikilvægt framlag á sviði fræðikenninga um máltöku og málbreytingar, líf og dauða tungumála og breytileika og þróun í máli einstaklinga.

Um framvindu verkefnisins má lesa undir Progress, svo og í ýmsum greinum og glærum undir Links.

Fréttir og viðtöl um verkefnið

Stutt yfirlit um verkefnið og niðurstöður þess, 30. júní 2020

Rannsóknarverkefnið „Greining á málfræðilegum áhrifum stafræns málsambýlis“ fékk öndvegisstyrk Rannsóknasjóðs árið 2016. Meginmarkmið verkefnisins var að kortleggja og greina stöðu íslenskrar tungu á tímum róttækra samfélags- og tæknibreytinga, með sérstöku tilliti til enskra áhrifa, einkum gegnum stafræna miðla. Afurðir verkefnisins eru 10 útgefnar greinar, 95 erindi og veggspjöld, 8 meistararitgerðir, 4 BA-ritgerðir, og tvær ópentaðar skýrslur. Tvær doktorsritgerðir eru á leiðinni, auk allnokkurra greina í tímaritum og ráðstefnuritum.

Upplýsingum var safnað um (1) umfang þess máláreitis sem málnotendur fá, bæði á íslensku og ensku; (2) viðhorf málnotenda til beggja tungumála; (3) orðaforða málnotenda á íslensku og ensku; (4) kunnáttu málnotenda í og málnotkun þeirra á bæði íslensku og ensku. Þessum upplýsingum var aðallega safnað með netkönnun sem send var til handahófsvalins úrtaks 5.000 málnotenda á aldrinum 3-98 ára, skipt í 11 aldurshópa, og með djúpviðtölum við 240 málnotendur valda eftir sérstökum viðmiðum úr hópi þátttakenda í netkönnuninni. Að auki voru tekin viðtöl við allmarga kennara og nokkra rýnihópa.

Niðurstöðurnar sýna glöggt að umhverfi íslenskunnar tekur örum breytingum. Íslendingar fá umtalsvert máláreiti á ensku, einkum börn og unglingar. Íslensk börn hefja snjalltækjanotkun mun yngri en var fyrir fáeinum árum. Viðhorf málnotenda gagnvart bæði íslensku og ensku eru yfirleitt jákvæð, en viðhorf yngra fólks gagnvart íslensku eru þó ekki eins jákvæð og viðhorf eldri aldurshópa. Í huga 13-16 ára unglinga virðist enska ekki síst tengjast afþreyingu og ferðalögum til útlanda en íslensku tengja unglingarnir einkum við skólaverkefni og umræðu um„rétt“ mál og „rangt“.

Niðurstöðurnar sýna enn fremur að hið nána samband milli íslensku og ensku sem hefur þróast á síðustu árum hefur haft þau áhrif að íslensk börn eru orðin færari í ensku, og mikil enska í málumhverfi þeirra ásamt almennum áhuga á ensku veldur því að enskur orðaforði þeirra er meiri og enskunotkun þeirra fylgir hefðbundnum normum betur en hjá þeim sem hafa minni ensku í málumhverfinu. Sum af yngstu börnunum tala ensku án nokkurs íslensks hreims. Hin nánu tengsl við ensku virðast þó ekki hafa veruleg áhrif á íslenska málkunnáttu og málnotkun barna enn sem komið er.

Vísbendingar eru um að mjög mikil enska í umhverfinu geti hraðað málbreytingum sem þegar eru í gangi í íslensku, en við höfum ekki fundið nein skýr dæmi um nýjar málbreytingar sem rekja megi til enskra áhrifa. Það er þó ljóst að ýmsar enskar formgerðir og orðasambönd eru að laumast inn í íslensku. Í stuttu máli má segja að niðurstöður okkar bendi til að íslenska standi enn sterkt, og málkerfið sýni engin umtalsverð merki um veiklun. En umfang ensku í málsamfélaginu hefur vaxið umtalsvert á síðustu árum og greina má ýmis merki um ensk áhrif bæði í orðaforða og setningagerð, einkum í máli barna og unglinga.